Facebook kynnir nýjung fyrir alþjóðleg fyrirtæki

Facebook tilkynnti í gær (17/10 2012) nýjung sem auðveldar alþjóðlegum fyrirtækjum að tala til og senda staðbundin skilaboð til fylgjenda sinna. Með þessari breytingu munu fylgjendur sem fara á Facebook fyrirtækjasíður vera færðir sjálfkrafa á þá fyrirtækjasíðu sem er mest viðeigandi fyrir þá, þ.e. byggt á því landi sem að fylgjendurnir er í. Með þessu munu fylgjendur sjá staðbundin skilaboð, staðbundnar ljósmyndir, staðbundin forrit (leiki osfrv) og fleiri staðbundin skilaboð sem að oft skipta fylgjendur meira máli en alþjóðleg skilaboð. Uppbygging þessara alþjóðlegu fyrirtækjasíðna (e. Global Pages) verður hagað þannig að undir þeim eru staðbundnar síður og þar að auki sjálfgefin síða fyrir markaði sem hafa ekki staðbundna síðu.

Þessar breytingar eru að öllum líkindum gerðar til að leysa vandamál sem við höfum orðið vör við að mörg alþjóðleg vörumerki hafa þurft að kljást við.
– Skapa skilaboð sem skipta fylgjendur máli.
Þegar vörumerki eru bundin innan þeirra ramma að þurfa að vera með skilaboð sem að þurfa tala frá einum prófíl jafnt til allra þeirra alþjóðlegu markaða sem vörumerkið starfar á þá verða skilaboðin oft almenns eðlis og útþynnt. Á sama tíma eru vörumerkin að missa af staðbundnum tækifærum.
– Samræmd ásýnd vörumerkisins á milli markaða.
Til að tækla ofangreint vandamál hafa vörumerki oft gripið til þeirra ráðstafana að stofna þar að auki staðbundnar Facebook fyrirtækjasíður. Þetta verður til þess að erfitt er að fylgjast með og mæla árangur allra síðanna en einnig verður erfitt að halda rödd og ásýnd vörumerkisins samræmdum á milli markaða.
– Ótengd samfélög.
Með því að brjóta samfélög upp á þennan hátt (skipta þeim upp á milli markaða) þá ná vörumerki ekki að sameina alla þá sem að hafa áhuga á að taka þátt í einu stóru samfélagi undir einn hatt – og missa þar með af tækifærum sem felast í því að vera alþjóðlegt vörumerki.

Það verður gaman að fylgjast með því hvað kemur út úr þessum breytingum hjá Facebook (við höfum ekki enn haft tækifæri til að skoða þær) og fylgjast með viðbrögðum fólks og fyrirtækja við þessari þróun á þjónustunni.

FlugféLAGIÐ

Í gegnum tíðina hafa auglýsingar sem byggðar eru á stefjum reynst þær sem sitja lengst í minninu. Íslendingar á öllum aldri hafa raulað kunnulegt stef þegar þeir hringja eftir leigubíl frá Hreyfli. Og hver man ekki eftir Ljómanum, sem Ríó Tríó sungu um að væri svo ljómandi góður?

Sögu auglýsingastefja má rekja aftur til þriðja áratugar 20. aldar en þá nýttu framleiðendur sér útbreiðslu útvarpsins til að koma skilaboðum sínum á framfæri. General Mills, hinn þekkti framleiðandi morgunkorns, ruddi brautina á sviði sunginna auglýsinga. Þegar stef þeirra „Have you tried Wheaties?“ ómaði á öldum ljósvakans og lofaði Wheaties fyrir sinn brakandi ferskleika, rauk sala morgunkornsins upp úr öllu valdi. Morgunkornið sem áður seldist illa, og stjórnendur fyrirtækisins höfðu ákveðið að taka af markaði, festi sig rækilega í sessi á morgunverðarborði Bandaríkjanna fyrir tilstilli stefsins.  Hlusta   (heimild)

Stórstjörnur bandarískrar tónlistar voru á þeim tíma gjarnan með eigin útvarpsþætti sem fönguðu eyru þjóðarinnar. Þar spiluðu tónlistarmennirnir lög sín og sungu auglýsingastef fyrir kostunaraðila þáttanna. Hér er hægt að heyra Flat & Scruggs syngja um hveitimjöl Mörtu White.Hlusta  

Hvernig væri að heyra Björk syngja um súkkulaðibita-kökudeig frá Jóa Fel í beinni útsendingu? Þó að ólíklegt sé að heimsfrægir tónlistarmenn, eins og Björk, syngi auglýsingastef fyrir fyrirtæki er alls ekki óalgengt að lög tónlistarmanna séu keypt til notkunar í auglýsingum.

Við hjá Íslensku auglýsingastofunni fengum það skemmtilega verkefni að búa til auglýsingaherferð fyrir Flugfélag Íslands þar sem markmiðið var að létta og yngja ímynd félagsins. Við ákváðum að hafa útvarpið, sem við teljum nokkuð vannýttan miðil hérlendis, þungamiðju herferðarinnar. Við sömdum auglýsingastef við  grípandi laglínu með  aragrúa texta um áfangastaði og tilboð Flugfélagsins. Markmiðið með stefjunum er að koma skilaboðunum til hlustanda á einfaldan hátt, á léttum en einlægum nótum.

Snorri Helgason fetaði í fótspor föður síns (Helga Pé, máttarstólpa úr Ríó Tríóinu) og lagði okkur lið ásamt öðrum tónlistarmanni, Guðmundi Óskari, í Stúdíó Sýrlandi þar sem stefin voru fínpússuð og tekin upp. Herferðin einskorðaðist þó ekki við útvarpsauglýsingar heldur birtist hún einnig á prenti, í sjónvarpi og á vefmiðlum. Sjá

Í ljósi umræðunnar um stefstuld, þ.e. þá iðju að taka þekkt stef og breyta örlítið þannig að það vísi hressilega til upprunalega stefsins, er komin tími til að leggja ríkari áherslu á frumsamin stef. Undirrituð vill gjarnan sjá meira samstarf auglýsenda og tónlistarmanna þegar kemur að því að auglýsa í útvarpi og víðar.

Hér að neðan er hægt að gægjast bak við tjöldin og fylgjast með vinnunni við  útvarpsherferð Flugfélags Íslands.

 

[vimeo clip_id="38927936" width="600" height="338"]

 

Og hér getur þú heyrt stefin:

 

Guðbjörg Tómasdóttir

Gildi viður-
kenningar í fyrirtækjum

„Pabbi sjáðu mig!“ Fjögurra ára gömul dóttir mín stendur stolt inni í herbergi, búin að velja fötin og klæða sig ein og óstudd, tilbúin til að fara á leikskólann.  Þetta er bara eitt af fjölmörgum atvikum sem við þekkjum úr daglegu lífi hjá börnunum okkar. Það er margsannað að viðurkenningar og hvatakerfi virka fyrir börn og í raun breytir ekki öllu hver gulrótin er. Málið snýst þegar allt kemur til alls um hrósið sjálft.

En hvað með gildi viðurkenninga í fyrirtækjum? Það er í eðli okkar að vilja fá hrós og viðurkenningu, líka eftir að við verðum fullorðin.  Facebook og Twitter eru uppfull af yfirlýsingum sem innihalda skilaboðin „Er ég ekki frábær?“ og „Sjáið hvar ég er!“.

Okkur líður vel þegar við tökum við hrósi og einhver man eftir því sem við gerðum vel. Okkur hlýnar um hjartarætur ef við fáum viðurkenningu á opinberum vettvangi eða bara í ræðu í vinahópnum og meira að segja við eldhúsborðið heima.  Hrósið virkar eins og bein innspýting á sjálfstraustið sem um leið eykur starfsánægju og vilja til að halda áfram að standa sig vel.

Á erfiðum tímum skiptir meira máli en nokkru sinni að halda starfsfólki sínu kappsfullu og jákvæðu.  Flestir eru sammála um að mestu verðmætin liggi í starfsfólkinu og því er áríðandi að þekkja réttu leiðirnar til að veita því innblástur og halda liðinu áhugasömu,  ekki síst þegar á brattann er að sækja. Þetta er sérlega mikilvægt þegar fyrirtæki eiga í vandræðum og óöryggi er mikið meðal starfsfólks. Margir stjórnendur hafa þann háttinn á að gera eitthvað fyrir fólkið sitt með reglulegu millibili, til að vera „nice“. Það er gott og gilt en getur líka orðið til þess að fólk fari að taka slíkum aðgerðum sem gefnum með tíð og tíma.

Að hrósa fólki á réttu augnabliki, fyrir ákveðna hegðun eða frammistöðu í starfi, er mun persónulegra og því líklegra til árangurs. Auk þessa opnar viðurkenning oft leiðir sem áður voru lokaðar og skapar ný tækifæri. Hún byggir undir traustara samstarf og gerir fólk almennt sveigjanlegra í samskiptum og viljugra til að takast á við erfið viðfangsefni. En hvernig geta stjórnendur nýtt sér þetta stjórntæki?

Það besta við viðurkenninguna er að hún kostar ekki krónu. Hún krefst þess hins vegar af okkur að við sýnum fólkinu í kringum okkur einlægan áhuga og höfum vakandi auga fyrir tækifærum til að hrósa. Við þurfum að hlusta á fólk og gefa því gaum. Þannig komum við auga á tækifærin sem eru fyrir augunum á okkur á hverjum degi. Það þarf ekki eitthvað stórkostlegt að gerast í vinnunni til að maður hrósi fólki fyrir gott starf. Það er alltaf eitthvað gott að gerast sem við veitum að jafnaði ekki athygli.

Fjögur góð ráð

Að þjálfa fólkið sitt í að veita hvert öðru viðurkenningu er eitt af fjölmörgum verkfærum sem nýtt eru í innri markaðsvinnu fyrirtækja með góðum árangri.  Hér eru fjögur lykilatriði sem gott er að hafa í huga þegar þú vilt tileinka þér það að veita viðurkenningu af trúverðugleika og ná góðum árangri:

1)   Taktu eftir þessu í fari einstaklinga:  Hlutum, eiginleikum eða atvikum.  Að hrósa fyrir eiginleika er alltaf sterkast því það er mjög persónulegt og snertir viðkomandi því mest. Að hrósa fólki fyrir fallega flík (þ.e. hlut) getur verið öllu snúnara ef það á að vera einlægt.

2)   Hrósið verður að vera einlægt og heiðarlegt, annars getur það snúist upp í andhverfu sína og orðið að yfirborðskenndu skjalli.

3)   Það er mikilvægt að sýna fram á að þú þekkir það sem þú hrósar fyrir og láta vita hvar þú tókst eftir því.

4)   Leggðu áherslu á að hafa hrósið stutt og hnitmiðað.  Horfðu í augun á þeim sem þú ert að veita viðurkenningu.

Harvard Business Review fékk metsöluhöfundinn og hvatningasérfræðinginn Bob Nelson, sem m.a. hefur unnið fyrir fyrirtæki eins og Time Warner, IBM og FedEx, til að skoða nánar áhrif viðurkenningar og hvatningar hjá fyrirtækjum.    Niðurstöður hans sýna hvað starfsmönnum finnst mikilvægast þegar kemur að hrósi og viðurkenningu. Þær er hægt að skoða á www.hbr.org

Heimir Jónasson

Innleiðing samfélagsmiðla í starfsemi fyrirtækja

Að einhverju leyti er markaðssetning á samfélagsmiðlum enn á frumstigi á Íslandi. Starfsmenn fyrirtækja eru enn að reyna að átta sig á þessum “nýju” miðlum og hvernig hagkvæmt er að nýta sér þá og eru enn að reyna að átta sig á því hvað það er sem núverandi og tilvonandi viðskiptavinarhópur þeirra vill heyra frá þeim. En þróunin er á réttri leið og mjög gaman er að fylgjast með þeim fyrirtækjum sem að eru byrjuð að nýta sér samfélagsmiðla í starfi sínu.
Eins og með flest allt annað er fólk þarna úti sem að spáir mikið í þróuninni á nýtingu samfélagsmiðla í markaðssetningu. Ekaterina Walter (http://www.ekaterinawalter.com/) er ein þeirra sem tjáir sig mikið um þessi mál. Hún starfar í dag sem yfirmaður samfélagsmiðla hjá Intel og hefur markað stefnu þeirra í þeim málum. Mér finnst hún hitta naglann á höfuðið með neðangreindri mynd sem að lýsir mismunandi skrefum sem að fyrirtæki ganga í gegnum þegar þau eru að tileinka sér samfélagsmiðla í starfsemi sinni.

4 stages of organizational adoption

4 skref innleiðingar á samfélagsmiðlum

Í dag virðist varkárni vera einkennandi í tilgangi margra fyrirtækja á Íslandi að samfélagsmiðlum – einkenni sem samsvarar skrefi 1 í myndinni hér að ofan. Það sem að einkennir oft þessi fyrstu skref er drífandi áhugi einstakra starfsmanna innan fyrirtækjanna. Skiljanlega eru fyrirtækin varkár því að þessir miðlar bjóða upp á samtal við núverandi og tilvonandi viðskiptavini, á meðan eldri miðlar gerðu ekki ráð fyrir beinum rauntíma samskiptum (t.d. prent, vefborðar og sjóvarpsauglýsingar). Fyrirtækin verða að átta sig á að þau þurfa að vera til staðar þegar það er haft samband við þau.

Langflest fyrirtæki eru að mínu mati að gæla við skref 2. Þau eru að reyna að réttlæta fyrir sér og yfirstjórn fyrirtækisins að það borgi sig að vera á samfélagsmiðlum. Þetta er ein stærsta áskorunin, þ.e. að skilgreina hver er mælanlegur árangur fyrir fyrirtækið og hvernig á að mæla þennan árangur.

Fyrirtæki sem væri hægt að staðsetja í skrefi 3 eru á góðum stað. Þetta eru ekki mörg fyrirtæki í dag, en á þessu stigi er starfsfólki farið að “líða vel” með miðlana og þau farin að sjá árangur þess að nýta sér þessa miðla. Það sem skiptir miklu máli er að yfirstjórnin hefur líka trú á þessum vettvangi og byrjað er að taka samfélagsmiðlar til greina í aðgerðaáætlunum. Á sama tíma er einnig búið að innleiða t.d. vöktun og svörun á miðlunum inn í daglega starfsemi fyrirtækisins, vítt og breytt um í fyrirtækinu (ekki bara í markaðsdeildinni).
Skref 4 er fyrirheitna landið. Stefnumótun fyrirtækisins inniheldur samfélagsmiðla frá upphafi og allir starfsmenn fyrirtækisins eru virkjaðir sem talsmenn á samfélagsmiðlum. Á þessu stigi er bæði “varnarleikur” og “sóknarleikur” fyrirtækisins á samfélagsmiðlum vel skilgreindur. Þegar við tölum um “varnarleik” erum við að vísa til þjónustuhluta fyrirtækisins og þar sem að fyrirtæki eru að svara sérhæfðum fyrirspurnum frá viðskiptavinum á samfélagsmiðlum. Okkar skilgreining á “sóknarleik” er þegar fyrirtækið sækir markaðslega út á markaðinn í gegnum samfélagsmiðla. “Varnarleikurinn” er þá oftast staðsettur innanhúss í fyrirtækinu á meðan að “sóknarleikurinn” er staðsettur hjá auglýsingasamstarfsaðila fyrirtækisins, að einhverju eða öllu leyti.

Hefur þú leitt hugann að því hvar fyrirtækið þitt er staðsett þegar kemur að innleiðingu samfélagsmiðla í starfsemi þess?
Hafið þið skilgreint “varnarleik” og/eða “sóknarleik” fyrirtækisins á samfélagsmiðlum?

Sigurður Hjaltalín
@hjaltalin